Landsmenn eru greinilega farnir að huga að utanlandsferðum nú þegar heimsfaraldur Covid-19 er á undanhaldi en ríflega sjöfalt fleiri íslensk vegabréf voru gefin út í mars á þessu ári, eða alls 4.640, ef borið er saman við fjöldann í sama mánuði á síðasta ári.
Þá hefur slíkur fjöldi ekki sést í einum mánuði í nokkur ár, eða frá því í ágúst árið 2017 þegar 5.098 vegabréf voru gefin út.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá, en stofnunin annast útgáfu slíkra skilríkja.
Útgáfa vegabréfa hefur verið í mikilli lægð frá því að heimsfaraldur Covid-19 fór fyrst að gera vart við sig. Náði hún algjöru lágmarki í apríl árið 2020 þegar einungis 129 vegabréf voru gefin út þann mánuðinn sem er lægsti fjöldi í að minnsta kosti áratug.
Fjöldi útgefinna vegabréfa tók þó smá kipp síðasta sumar og fór hann þá mest í 4.143 í júlí, sem hefur verið einn annasamasti mánuðurinn í þessum efnum síðastliðinn áratug.