6.3 C
Grindavik
26. september, 2021

Veislumáltíð fyrir gesti á kaffistofu Samhjálpar

Skyldulesning

Kristófer Helgason og Íris Jóhannsdóttir við undirbúning veislunnar í mötuneyti …

Kristófer Helgason og Íris Jóhannsdóttir við undirbúning veislunnar í mötuneyti Árvakurs í gær.

mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er ótrúlega fallega gert. Við erum mjög þakklát fyrir og hlökkum til að reiða fram matinn,“ segir Jóna Björg Howard, verkefnisstjóri kaffistofu Samhjálpar.

Hádegisverðurinn á kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni verður í veglegri kantinum í dag því Kristófer Helgason og Íris Jóhannsdóttir, kokkar í mötuneyti Árvakurs sem gefur meðal annars út Morgunblaðið, hafa tekið að sér matreiðsluna. Gestir eiga von á góðu; lambakjöti með sveppasósu, kartöflubátum og fersku salati.

Jóna segir í samtali við Morgunblaðið að alla jafna mæti um 150-170 manns í mat á kaffistofuna. Færri láti þó sjá sig þessa dagana vegna kórónuveirunnar.

„Lífið er nógu erfitt fyrir hjá mörgum en svo bætist þetta Covid við. Það eykur bara á erfiðleika margra,“ segir Jóna og kveðst ánægð að geta glatt gestina með sérstaklega góðum mat í dag. Hún kveðst hafa sett sig í samband við fjölmörg mötuneyti fyrirtækja og spurt hvort þau gætu séð af mat fyrir skjólstæðinga sína. Kristófer tók vel í það og hefur fært þeim afgangs máltíðir að undanförnu. Hann tók svo málin í sínar hendur og þau Íris ákváðu að snara fram heilli veislumáltíð.

„Ég talaði við helstu birgjana mína, Esju gæðafæði og Íslensk-ameríska, og kannaði hvort þeir vildu hjálpa mér með hráefni. Þeir sögðu strax já og máltíðin verður ekkert slor,“ segir Kristó eins og hann er jafnan kallaður.

Hvetur fleiri mötuneyti til að leggja sitt af mörkum

Kristó segir það ánægjulegt að geta lagt sitt af mörkum fyrir þá sem á þurfa að halda. Hart sé í ári hjá mörgum um þessar mundir og jólahátíðin fram undan. „Maður varð að gera eitthvað. Ég vil gjarnan hvetja önnur mötuneyti og birgja sem mögulega geta gert eitthvað til að fylgja í kjölfarið,“ segir Kristó.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir