2 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Veitingastaðir í Reykjavík byrjaðir að senda kokka heim til fólks – „Núna í Covid er brjálað að gera“

Skyldulesning

„Njóttu þess að bjóða í mat heima hjá þér með aðstoð matreiðslumanna og þjóna frá helstu veitingastöðum landsins,“ segir í færslu nýs fyrirtækis sem auglýst hefur á Facebook undanfarið. Um er að ræða fyrirtækið Private Dining – Kokkinn heim en þar er fólki boðið að fá kokka frá veitingastöðum til að elda fyrir sig heima hjá sér.

Jón Kári Hilmarsson, framkvæmdastjóri Private Dining, ræddi við DV um þessa upplifun sem fyrirtækið hans býður upp á. „Þetta er hugmynd sem kom upp hjá félaga mínum núna bara fyrir nokkrum vikum. Félagi hans er búinn að reka svona fyrirtæki í nokkur ár í Danmörku og hefur gengið vel,“ segir Jón Kári. „En núna í Covid er brjálað að gera hjá honum og Michelin veitingastaðir sem ekki vildu vera með i byrjun, vilja núna endilega vera með.“

Jón fór í þetta ásamt félaga sínum en þeir hafa fengið 14 veitingastaði til að vera í þessu með sér. Um er að ræða veitingastaði á borð við Grillmarkaðinn, KOL, Snaps og fleiri en listann yfir alla veitingastaðina má sjá neðst í fréttinni.

„Ég hef haft mikla tengingu við veitingabransann frá unga aldri og þekki vel eigendur flestra veitingastaða Reykjavikur. Ég hef búið í 101 Reykjavik í 25 ár og borða flesta daga á veitingastöðum. Núna þegar flestir veitingstaðir eiga erfitt rekstrarlega, fannst mér  þetta því frábær hugmynd og ákvað að prófa að setja þetta af stað með þessum veitingastöðum,“ segir Jón en mikið er að gera hjá þeim eftir að heimasíðan þeirra fór í loftið.

„Við settum heimasíðuna upp núna um helgina og við höfum fengið mjög góð viðbrögð og mikið af fyrirspurnum. Við erum að vinna úr nokkrum pöntunum en eins og er hefur enginn pantað fyrir tvo. Þessir hópar sem við erum að tala við eru 6-8 manns. Að sjálfsögðu er fólk að hugsa um fjöldatakmarkanir núna og fer varlega í sakirnar.“

Hér fyrir neðan má sjá listann yfir þá veitingastaði sem senda kokka heim til fólks í gegnum Private Dining:

 • Duck & Rose
 • Fiskmarkaðurinn
 • Forréttabarinn
 • Grillmarkaðurinn
 • KOL
 • Matarkjallarinn
 • PÜNK RVK
 • Reykjavik Meat
 • ROK
 • Sjáland
 • SKÁL
 • Snaps
 • Steikhúsið
 • Sumac

Innlendar Fréttir