Vendingar í máli mannsins sem rændi Filippu – Lögregla ræddi við hann eftir hvarf Emilie Meng – DV

0
211

Maðurinn sem er í haldi dönsku lögreglunnar vegna gruns um að hafa rænt og misnotað hina þrettán ára gömlu Filippu á dögunum var yfirheyrður á sínum tíma í tengslum við hvarf Emilie Meng.

Ekstra Bladet greindi frá þessu í morgun.

Emilie Meng hvarf í júlí 2016 í Korsør en svo vill til að það er ekki langt frá staðnum sem Filippa var á þegar hún hvarf. Lík Emilie fannst á aðfangadag sama ár í vatni við Borup og hefur morðingi hennar ekki náðst.

Filippa hvarf á laugardag fyrir rúmri viku eftir að hafa verið að bera út blöð. Hún fannst á lífi daginn eftir og var maðurinn, sem er 32 ára, handtekinn í kjölfarið og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Ekstra Bladet hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni sínum að lögregla hafi rætt við þennan sama mann – sem ekki hefur verið nafngreindur í dönskum fjölmiðlum – eftir hvarf Emilie Meng á sínum tíma, eða árið 2016.

Á þeim tíma átti maðurinn silfurlitaða Hyundai i30-bifreið sem líktist mjög bifreið sem sást á upptöku eftirlitsmyndavélar á lestarstöð í Korsør nóttina sem Emilie hvarf.

Ekstra Bladet segist ekki hafa nánari upplýsingar um hvað kom fram í samtali lögreglunnar og mannsins. Lögregla hafi samt rætt við hann vegna bílsins sem hann var á og gruns þess efnis að sá sem rændi Emilie hafi verið á samskonar bifreið.