Verja markið sitt eins og sannir Víkingar – Vísir

0
113

Verja markið sitt eins og sannir Víkingar Jón Már Ferro skrifar 25. apríl 2023 12:30

Víkingur er eina liðið sem hefur haldið hreinu í fyrstu þremur leikjum Bestu deildar karla.

KR fór í heimsókn til Víkinga í gær en áttu ekki erindi sem erfiði og 3-0 sigur þeirra síðarnefndu var sannfærandi frá upphafi til enda. Mörk Víkinga skoruðu Logi Tómasson, Birnir Snær Ingason og Arnór Borg Guðjohnsen.

Eftir þrjár umferðir lítur Víkingsliðið einkar sannfærandi út og ekkert lið hefur staðist þeim snúninging hingað til.

Klippa: Besta deild karla: Víkingur 3-0 KR

Þeir mættu Stjörnunni á Samsungvellinum í fyrstu umferð og unnu með tveimur mörkum gegn engu. Mörkin skoruðu varnarmaðurinn Oliver Ekroth og Nikolaj Hansen. 

Í annari umferð unnu þeir aftur með tveimur mörkum gegn engu, þá á móti nýliðum Fylkis á Víkingsvellinum, með mörkum frá Oliver Ekroth og fatahönnuðinum, Birni Snæ Ingasyni.

Margir hafa beðið eftir því að Birnir Snær springi út í stöðu kantmanns hjá Víkingum. Byrjun hans á mótinu lofar góðu og stefnir hann hratt að því að bæta markafjölda sinn í fyrra þegar hann skoraði einungis 5 mörk í deildinni.

Þrátt fyrir að liðið væri eflaust til í að vera með bandaríska miðvörðinn, Kyle McLagan, heilan heilsu þá er erfitt að færa rök fyrir því að liðið sakni hans. Framherjar deildarinnar fá martraðir yfir miðvarðarpari Víkinga sem samanstendur af herra Víking, Halldóri Smára og hinum sænska, Oliver Ekroth.