10.2 C
Grindavik
24. júní, 2021

Verslunarstjórinn skyldi ekki af hverju rafhlöður seldust svo vel – Síðan sá hann umfjöllun sem skýrði málið

Skyldulesning

Um 2.300 manns búa í Siljan í Noregi. Þar er Rolf Øverbø bensínstöðvarstjóri á bensínstöð YX þar sem hægt er að kaupa ýmislegt annað en eldsneyti, þar á meðal rafhlöður. Rolf hafði lengi undrast hversu margar AA-rafhlöður seldust, salan var eiginlega ekki í neinu samræmi við íbúafjöldann. Nýlega las hann umfjöllun i Telemarksavisa sem varpaði ljósi á málið.

TV2 skýrir frá þessu. Umfjöllun Telemarksavisa bar fyrirsögnina „Bygda nær sex-toppen“. Í henni kom fram að verslun, sem selur hjálpartæki ástarlífsins, hafði nýlega sagt Siljan vera númer tvö á lista yfir þau byggðarlög þar sem flest hjálpartæki ástarlífsins eru keypt.

„Við verðum að laga okkur að markaðnum,“ sagði Rolf í samtali við TV2 og gat þess að bensínstöðin væri nú með tilboð á AA-rafhlöðum, þrjár fyrir verð tveggja.

Á föstudaginn birti hann færslu á Facebooksíðu bensínstöðvarinnar sem hefur vakið mikla athygli og jafnvel komið sumum til að hlæja.

„Eftir umfjöllun TA fyrr í vikunni, veit ég af hverju salan á AA-rafhlöðum rýkur upp þegar haustar. Hef furðað mig á af hverju svo margar konur í Siljan stunda veiðar. Það kom í ljós að það er hægt að nota þessar AA-rafhlöður í fleira en talstöðvar og GPS,“ skrifaði hann meðal annars.

Í samtali við TV2 sagði hann að þegar hann hafi heyrt að Siljan væri í öðru sæti á fyrrnefndum lista hafi hann ákveðið að vera með tilboð á rafhlöðum og hafi skrifað færslu á Facebook um þetta. Viðbrögðin hafi verið ótrúleg og salan mikil.

„Það er örugglega mikið notað af rafhlöðum þegar fólk fer til veiða á haustin en fólk er líka meira heima á daginn og salan á rafhlöðum er líklegast merki þess að fólk skemmtir sér,“ sagði hann og hló.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir