10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Vetrarríki á 69°N

Skyldulesning

IMG 2832

Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum að nú er vetur á landinu bláa. Veturinn hefur í gegnum tíðina fyrst og fremst þjónað þeim tilgangi að þreyja Þorrann og Góuna. Nema þá að fólk drífi sig á ströndina til Tene eða í Alpana á skíði. Aldrei hef ég skíðamaður verið hvað þá komið til Tene og því hefur veturinn verið meira þorrinn og Góan. Þó lærði ég betur að meta veturinn á 69°N og þá náttúrulega aðallega við steypu auk þess að glíma við að ná myndu af fyrirbærinu.

Á 69°N lenti ég í verkefni fyrir samískt safn eða réttara sagt bóndabæ sem gerður hefur verið að safni „kyst sama“ en svo nefndust samar sem höfðu fasta búsetu. Norskur vinnufélagi hafði sagt mér að enn væru til samar í Troms sem hafa hreindýr til að fylgja og voru það tvær hjarðir. Þessir samar hafa rétt frá fornu fari til að ferðast með hreindýrahjarðirnar óheft. Kyst samarnir eða strandsarmarnir höfðu ekki hreindýr eða tjöld þeir bjuggu á sínum bæjum með sinn bústofn.

Talið er að til séu einhverstaðar á milli 50.000 – 80.000 samar og að um 40.000 þeirra búi í N. Noregi, annars nær þeirra búsetusvæði yfir Noreg, Svíþjóð, Finnland og Rússland. Samarnir hafa svolítið austur Evrópu útlit, ljósir yfirlitum með há kinnbein, ljós augu og allt annað tímaskin. Kannski eitthvað svipað og stundum var sagt um Jökuldælinga í denn, -að það væri tilgangslaust að gefa þeim úr í fermingagjöf, dagatal kæmi sér betur.

Veturinn 2013 var dæmigerður N. Norskur vetur á 69°N. Þennan vetur kynntist ég Sömum þegar við vinnufélagi minn frá Súdan hlóðum upp fyrir þá fjósmúrinn á Gallogiedde í Evenesmarka. Matthildur mín dvaldi hjá mér um tíma þennan vetur. Þetta tvennt varð til þess að ég kynntist vetrinum betur en bara við að þreyja Þorrann og Góuna.

Ég fór m.a. með Sömunum á snjósleða upp í Bláfjöll til að skoða annað verkefni. Auk þess sem við Matthildur fórum dagsferð norður í Bardu til að skoða dýragarð í vetrarríkinu, Polar Zoo. Annars hefur norski herinn mikil umsvif í Bardu héraði og umhverfast bæirnir Bardufoss og Satermoen nær eingöngu um umsvif hersins. Ég ætla að leifa nokkrum myndum frá þessum vetri að fljóta með færslunni, enda hefði ég ekki nennt að skrifa hana án þeirra.

IMG 2716

Gallogiedde samískt safn hátt upp í Evenesmarka

IMG 2820

Það var fallegt þegar éljunum létti svona svipað og í útsynningi syðra, enda útsynningur af hafi sem náði langt upp í Evenesmarka

IMG 3172

Það kenndi ýmissa grasa í Gallogiedde og stundum kófaði inn

IMG 3245

Samískt svefnherbergi á safninu í Gallogiedde

IMG 2922

Elgir áttu það til að koma og kíkja á múrarana í túnfætinum 

 IMG 3626

Vilgesvárre í Bláfjöllum

IMG 3631

Setið á hreindýraskinnum í Bláfjalla föninni og drukkin Sama kaffisopi

IMG 3159

Það var ekki alltaf vetrar blíðan, horft út um gluggann á Gamle Stangnesvei heima í Harstad

IMG 3317

Svo kom Matthildur mín og sólin braust fram úr éljabökkunum

IMG 3543

Heimskautarefurinn er varla til lengur í villtri náttúru Noregs, sá rauði Evrópski hefur fært sig norður eftir og yfirtekið að mestu búsvæði hans, nema á Svalbarða og svo eru nokkrir í´Polar Zoo garðinum í Bardu

IMG 3508

Það var rammgert gerðið í kringum úlfana í Polar Zoo, samt gat sú sem gaf þeim farið inn fyrir girðingu án áhættu. Þarna var vel á annan tug úlfa

IMG 3567

Gaupa er stór villtur köttur í náttúru Noregs. Hún er sjaldséð og sagði einn norsku vinnufélagi að hann hefði aldrei séð meira en spor eftir Gaupu allt sitt líf en þær voru á ferðinni í Polar Zoo í Bardu

IMG 3531

Skógarbirnirnir voru nývaknaðir úr vetrardvalanum og veifuðu viðstöddum á milli þess sem þeir nudduðu stírurnar úr augunum

IMG 3557

Matthildur mátti til, -rétt eins og börnin, að strjúka elgnum. Ég þekki ekki nokkra manneskju sem á eins auðvelt með að ná sambandi við dýr og hún Matthildur mín

IMG 3501 

Í Polar Zoo, þar sem mátti sjá úlfa og birni í rammgerðu gerði, gerðist það sem sjaldan gerist. Þennan dag kom Amarok ásamt sinni frú, sem hafa alltaf verið frjáls og notið víðáttunnar, til að nálgast bita í frostinu hjá gerðis úlfunum, þar sem úlfahirðirinn hafði átt það til að láta einn og einn bita falla utan girðingar. Annars eiga villtir úlfar verulega undir högg að sækja í Noregi eins og víðast hvar í heiminum. Með því að horfast í augu við Amarok eitt augnablik, þá skynjaði maður vel vantraust þessa frjálsborna höfðingja á mannskeppninni

Hægt að sjá fleiri myndir af N Norskum vetri í albúminu Vetur 2013.


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir