„Við erum slegin yfir þessu“

0
51

Kjartan Már segir mildi að ekki fór verr. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir hug sinn vera hjá aðstandendum og fjölskyldu mannsins sem lést í eldsvoða í skipinu Grímsnesi GK-555 í nótt. Tveir slösuðust í eldsvoðanum, annar þeirra alvarlega og er hann nú á gjörgæslu í Fossvogi. 

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

„Þetta er hörmulegur atburður. Við erum slegin yfir þessu. Hugur okkar er hjá aðstandendum og fjölskyldu hins látna. Líka hjá þeim sem eru á sjúkrahúsi núna,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is. 

Slökkviliði barst tilkynnning laust eftir klukkan tvö í nótt um eld í skipinu. Sjö voru um borð og tókst fjórum að komast frá borði. 

Erfiðar aðstæður um borð „Þetta er hræðilegt mál. Við vitum ekkert hvað gerðist þannig við getum ekkert tjáð okkur um það,“ segir Kjartan. Grímsnes er í eigu útgerðarfélagsins Marons ehf.

„Við þökkum Guði fyrir að ekki fór verr. Þetta voru erfiðar aðstæður. Einn inngangur upp og niður í bátnum. Það hefði ekki mikið þurft til þess að þetta færi enn verr,“ segir Kjartan.