6 C
Grindavik
21. apríl, 2021

Viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar takmörkuð

Skyldulesning

Viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar var ekki mikil í gær er leitað var upplýsinga um rekstrarhæfni tækja stofnunarinnar.

mbl.is/Árni Sæberg

Fátt af þeim tækjum sem Landhelgisgæslan býr yfir voru til taks í gær er leitað var upplýsinga um stöðu rekstrarhæfni þeirra. Þá var aðeins eitt varðskip og ein þyrla til taks auk aðgerðarbátsins Óðins á öllu landinu síðdegis í gær.

Fram kom í umfjöllun 200 mílna á þriðjudag að það sé alls óvíst hvort og þá hvenær varðskipið Týr kemst aftur í rekstur Landhelgisgæslunnar, en þarfagreining og áhættumat stofnunarinnar gerir ráð fyrir því að þörf sé á að búa yfir þremur varðskipum.

Í svari við fyrirspurn um rekstrarhæfni tækja Landhelgisgæslunnar segir um flugvélina TF-SIF að hún og áhöfn sinni nú landamæraeftirliti fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópu, við Miðjarðarhaf og er vélin því stödd á Möltu. Þá er flugvélin í skoðun sem lýkur í dag.

Þyrlan TF-LIF, sem er 35 ára, verður seld úr landi að loknu viðhaldsferli sem stendur nú yfir í samræmi við ákvörðun stjórnvalda þar um. „Í stað hennar er þriðja leiguþyrlan væntanleg af gerðinni Airbus Super Puma EC225. Sú fær einkennisstafina TF-GNA og gert er ráð fyrir að vélin komi til landsins um mánaðamótin,“ segir í svarinu.

TF-EIR var í reglubundnu viðhaldi í gær og átti því að ljúka í gærkvöldi samkvæmt svari Gæslunnar. Mun sú þyrla sinna leit, björgun, eftirliti, sjúkraflugi, æfingum og öðrum verkefnum. TF-GRO var eina loftfar Landhelgisgæslunnar sem var tiltækt samkvæmt svarinu.

Hvað skipakostinn varðar er ástandið á Tý þekkt og sinnir varðskipið Þór nú eftirliti umhverfis Ísland sem og aðgerðabáturinn Óðinn. Ægir er í söluferli en fjórir hafa gert tilboð í varðskipið gamla.

Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur er gert út á vorin og sumrin samkvæmt svarinu. „Baldur er í reglubundnu og skipulögðu viðhaldi um þessar mundir. Báturinn er orðinn þrjátíu ára og ber aldurinn vel.“

Krefjast aðgerða

Talsmenn fimm mismunandi samtaka sjómanna lýstu í gær yfir, í sameiginlegri ályktun, áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í kjölfar þess að í ljós kom umfangsmikil viðhaldsþörf á varðskipinu Tý.

Jafnframt hefur formaður Landssambands smábátaeigenda, Arthur Bogason, lýst áhyggjum af stöðunni, enda fáir sem eru jafn útsettir fyrir náttúruöflunum og smábátasjómenn.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir