Gamla Arsenal-hetjan Patrick Vieira hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra franska úrvalsdeildarliðsins Nice.
Illa hefur gengið hjá Nice að undanförnu og liðið tapað fimm leikjum í röð. Vieira skilur við Nice í 11. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar.
Vieira stýrði Nice í síðasta sinn þegar liðið tapaði, 2-3, fyrir Bayer Leverkusen á heimavelli í Evrópudeildinni í gær. Nice er í 3. sæti C-riðils og á ekki möguleika á að komast í 32-liða úrslit keppninnar.
Vieira, sem er 44 ára, tók við Nice sumarið 2018. Á fyrsta tímabili sínu við stjórnvölinn endaði Nice í 7. sæti frönsku deildarinnar. Á síðasta tímabili varð Nice í 5. sæti og komst þar af leiðandi í Evrópudeildina.
Áður en Vieira tók við Nice stýrði hann New York City í bandarísku MLS-deildinni um tveggja ára skeið.
Næsti leikur Nice er gegn Reims á útivelli á sunnudaginn.