Víkingar komust alla leið upp í fjórða sætið á sögulegum lista – Vísir

0
56

Víkingar komust alla leið upp í fjórða sætið á sögulegum lista Víkingar héldu marki sínu hreinu fram í seinni hálfleik á sínum fimmta leik í Bestu deild karla í fótbolta í ár og því hafa ekki mörg félög náð í sögu efstu deildar karla.

Víkingsliðið fékk loksins á sig mark í 4-1 sigri á Keflavík í gær en þá var Ingvar Jónsson búinn að halda marki sínu hreinu fyrstu 425 mínútur tímabilsins.

Sá sem braut ísinn var Keflvíkingurinn Marley Blair á 65. mínútu leiksins með skoti sem Ingvar hefði kannski átt að verja. Víkingar kvörtuðu þó ekki mikið yfir því enda liðið sem fullt hús á toppi Bestu deildar karla með markatöluna 12-1.

Það eru aðeins þrjú lið sem hafa haldið marki sínu lengur hreinu í upphafi leiktíðar.

Metið er í eigu Framara frá árinu 1990 en markvörður liðsins var Birkir Kristinsson. Framliðið hélt þá hreinu fram í seinni hálfleik á sjötta leik eða alls í 518 mínútur. Framarar urðu Íslandsmeistarar það sumar.

Í öðru sæti er annað Framlið eða lið þeirra frá árinu 1980. Markvörður þess liðs var Guðmundur Baldursson. Fram náði ekki að verða meistari þetta sumar en liðið endaði í 2. sæti deildarinnar.

Í þriðja sætinu eru síðan Valsmenn frá sumrinu 1989 en markvörður liðsins var Bjarni Sigurðsson. Valsmenn náðu ekki að fylgja þessu nógu vel eftir og enduðu bara í fimmta sæti deildarinnar um haustið.

Lengst haldið hreinu í upphafi móts í efstu deild: 518 mínútur – Fram 1990 470 mínútur – Fram 1980 446 mínútur – Valur 1989 425 mínútur – Víkingur 2023 396 mínútur – ÍA 1981 318 mínútur – Valur 1991 314 mínútur – Keflavík 1979 302 mínútur – Fram 1988