Vilhjálmur prins og Katrín hertogaynja, eiginkona hans, eru sögð íhuga að flytja til Windsor í sumar til að geta verið nær Elísabetu II drottningu, ömmu Vilhjálms, sem hefur glímt við heilsufarsvandamál að undanförnu.
The Sun skýrir frá þessu. Bent er á að drottningin, sem er 95 ára, glími við ýmis heilsufarsvandamál og hafi gert síðan á síðasta ári. Það virðist hafa ýtt undir áhuga Vilhjálms og Katrínar á að flytja nær henni en drottningin er flutt til Windsor.
Hjónin eru sögð hafa verið að skoða nokkrar eignir nærri Windsor að undanförnu. Þar á meðal er húsnæði sem Andrés prins, næstyngsti sonur Elísabetar, hefur til umráða en hann er ekki sagður á þeim buxunum að láta það eftir.
The Sun segir að hjónin vilji ekki búa í Windsor Castle eða Fort Belvedere en þar bjuggu Edward VIII og Wallis Simpson á sínum tíma.
Orðrómur hefur verið uppi um að hjónin íhugi að flytja í Frogmore House en þangað fara þau oft með börnin sín þrjú um helgar.
Auk þess að leita að hentugu húsnæði eru hjónin sögð hafa skoðað skóla á svæðinu.