Vilja að allir sjái hvernig fór fyrir 13 ára syni þeirra – DV

0
130

Aðstandendur þrettán ára drengs sem lést eftir að hafa gert áskorun sem gengur á samfélagsmiðlinum TikTok segjast ætla að gera allt sem þeir geta til að harmleikurinn endurtaki sig ekki. Áskorunin felur í sér að innbyrða ofnæmislyfið Benadryl í stórum skammti og er markmiðið að finna fyrir einhvers konar ofskynjunaráhrifum.

Lyfið sem um ræðir er selt í lausasölu í Bandaríkjunum og tók pilturinn, Jacob Stevens, 12-14 töflur af lyfinu áður en hann féll í yfirlið og veiktist alvarlega. Jacob var haldið sofandi í öndunarvél í sex daga áður en hann lést fyrr í þessum mánuði.

ABC ræddi við aðstandendur Jacobs og kemur fram í frétt miðilsins að foreldrarnir vilji gjarnan að allir sjái hvernig fór fyrir syni þeirra í þeirri von að það komi í veg fyrir að aðrir geri það sama.

„Ég mun gera allt sem ég get til að tryggja að annað barn þurfi ekki að ganga í gegnum það sama,“ segir amma Jacobs, Dianna Stevens. Justin Stevens, faðir Jacobs, segist aldrei hafa upplifað jafn erfiðan dag og þegar sonur hans lést.

Í frétt ABC kemur fram að Jacob hafi verið heima með vinum sínum þegar þeir ákváðu að gera áskorunina. Ekki löngu eftir að hann hafði innbyrt lyfið byrjaði hann að fá flog og var hann fluttur í skyndi á sjúkrahús. Eftir sex daga í öndunarvél var læknum ljóst að hann myndi ekki vakna aftur, ekki ganga aftur og ekki brosa aftur. Heilastarfsemin væri engin.

Justin segir að sonur hans hafi verið lífsglaður ungur piltur sem gat alltaf komið honum til að brosa. Hann hvetur foreldra til að vera vakandi fyrir því sem börnin þeirra gera á netinu.

„Hafið auga með því sem þau eru að gera í símanum. Talið við þau um þetta,“ segir hann.

Fjölskylda Jacobs hefur einnig farið þess á leit að sett verði aldurstakmark þannig að börn geti ekki nálgast lyfið í lausasölu. Þá vill hann að samfélagsmiðlar á borð við TikTok geri meira til að tryggja að börn geti ekki fengið aðgang að forritinu.