6.3 C
Grindavik
4. október, 2022

Vilja betri borg fyrir börn í Reykjavík

Skyldulesning

Verkefninu var formlega ýtt úr vör í dag við hátíðlega …

Verkefninu var formlega ýtt úr vör í dag við hátíðlega athöfn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Regína Ásvaldsdóttir sviðssjóri velferðarsviðs og Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs undirrituðu í dag samstarfssamning um verkefnið „Betri borg fyrir börn í Reykjavík“.

Dagurinn í dag markar því formlegt upphaf á verkefninu sem er að fara af stað í öllum hverfum borgarinnar. Verkefnið miðar að aukinni nærþjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra, meðal annars með því að færa hana út í skólaumhverfið.

Ný velferðar-, skóla- og frístundaþjónusta mun einfalda aðgengi og bæta þar með þjónustu við börn og fjölskyldur í Reykjavík sem þurfa á aðstoð sérfræðinga að halda.

Í dag fór jafnframt fram kynning á verkefninu „Þjónustuumbreyting Betri borgar fyrir börn“ sem unnin er í samstarfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.

Bætt upplýsingaflæði

Stafræn vegferð Reykjavíkurborgar hlaut nýlega alþjóðlega viðurkenningu og fjárhagsstuðning frá Bloomberg Philanthropies. Borgin er á meðal sex borga í þriggja ára nýsköpunarverkefni sem ber nafnið „Build back better“ og er styrknum ætlað að hraða stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar.

Kynning á verkefninu fór fram við góðar undirtektir.

Kynning á verkefninu fór fram við góðar undirtektir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sagt var frá störfum nýsköpunarteymisins, svokallaðs i-teymis, sem kemur að stafrænum lausnum verkefnisins. Verkefni i-teymisins verður að bæta rafrænt aðgengi að þjónustunni svo og vinnuumhverfi sérfræðinga. Þannig verður umsóknarferli umbreytt í stafrænt form, verkferlar einfaldaðir og upplýsingaflæði milli ólíkra stofnana og fagaðila stórbætt.

Stafræn umbreyting einfaldi ferla og utanumhald

„Þetta er í raun tvíþætt verkefni með sama markmiðið. Við erum að endurskipuleggja þjónustu sem kemur að börnum, úti í skólunum, úti í hverfunum og færa bæði starfsfólk að miðlægum skrifstofum og út í borgarhlutana þannig að fagfólkið vinni þar svona hönd á hönd saman þvert á fög á forsendum barna og fjölskyldna,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.

Dagur segir verkefnið eitt og sér vera stórt skref en með stafrænni umbreytingu sé verið að einfalda alla ferla og utanumhald um gögn til þess að gera verkefnin markvissari.

Sérstaka hrifningu vakti myndræn framsetning verkefnisins á vegg í vinnurými …

Sérstaka hrifningu vakti myndræn framsetning verkefnisins á vegg í vinnurými hópsins sem unnin er af listakonunni Emblu Vigfúsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög stórt verkefni, auðvitað höfum við verið í sífelldum umbótum árum saman en við viljum alltaf gera betur. Hér erum við að setja sérstakan kraft í þetta og taka svolítið stór skref til þess að gera betri borg fyrir börn.“

Múrar milli sviða felldir niður

„Við settumst niður og ákváðum að sjá hvernig við getum betur þjónustað börnin í borginni,  segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs.

„Þetta eru sem sagt tvö svið, velferðarsvið annars vegar sem er með alla félagsþjónustu og svo skóla- og frístundasvið sem er með alla skóla og leikskóla og hefur svo verið að kalla á þjónustu frá hinu sviðinu.“

Hún segir að því hafi verið ákveðið að fella niður múra milli sviða og að bæta um þjónustuna.

„Við erum að vonast til þess að bæði börnin og fjölskyldurnar í borginni muni í lok þessa árs og á næsta ári finna varanlegan og áþreifanlegan mun á þjónustunni.

Skólarnir og borgin á að vera fyrir okkur öll alveg jafnt og við eigum öll rétt á þeirri þjónustu sem við þurfum.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir