Stuðningsmenn ensku knattspyrnufélaganna Manchester City og Liverpool eru mótfallnir því að leikur liðanna í undanúrslitum enska bikarsins fari fram á þjóðarleikvanginum Wembley.
Leikurinn á að fara fram um páskana en þá liggja lestarsamgöngur á Englandi að mestu leyti niðri. Gæti því reynst erfitt fyrir stuðningsfólk félaganna að ferðast til höfuðborgarinnar.
„Það er ekki rökrétt að Manchester City – Liverpool fari fram á Wembley. Þetta eru stór félög og við biðjum þau og knattspyrnusambandið um að færa leikinn með stuðningsmenn í huga.
Það eru margir leikvangar mun nærri báðum félögum sem eru nægilega stórir til að hýsa undanúrslitaleik,“ segir m.a. í sameiginlegri yfirlýsingu stuðningsmanna beggja félaga.