2 C
Grindavik
15. maí, 2021

Vilja hefja grásleppuveiðar óvenjuseint: 3. apríl

Skyldulesning

Kolbeinn Ingi Gunnarsson og Rúdólf Jón Árnason á Höllu Daníelsdóttur landa Grásleppu á vertíðinni í fyrra. Ekki er vitað hvenær vertíðin hefst í ár.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landssamband smábátaeigenda (LS) leggur til að grásleppuvertíðin að þessu sinni hefjist ekki fyrr en 3. apríl. Enn hefur ekki verið gefin út reglugerð um tilhögun veiðanna á þessu ári, en vitað er til þess að grásleppusjómenn séu þegar búnir að gera ráðstafanir til að hefja veiðar enda hafa veiðar undanfarin ár yfirleitt farið af stað um þetta leyti.

Fram kemur í færslu á vef LS að fulltrúar sambandsins hafi átt fund með sérfræðingum í atvinnuvegaráðuneytinu í síðustu viku um væntanlega grásleppuvertíð. „Fram kom að ráðuneytið sæi ýmsa annmarka á að stjórna veiðum með dögum sem skilgreindir væru til veiðitíma þegar net væru í sjó. Kæmu þar við sögu þættir sem tengjast eftirliti og mati á sóknargetu.“

Öllum tryggt jafn marga daga

Þá segir að ráðuneytið hafi lagt áherslu á að stjórnun veiða yrði að tryggja öllum þátttakendum í veiðunum jafnmarga veiðidaga og að heildarafli færi ekki umfram magn leyfilegs heildarafla. En í fyrra varð veðurfar til þess að veiði skiptist afar ójafnt milli grásleppusjómanna.

Á fundinum lagði LS til að veiðar hefjist ekki fyrr en 3. apríl og vísar sambandið til þess að Hafrannsóknastofnun mun ekki tilkynna ráðgjöf sína fyrr en 31. mars sem gerir það erfitt að ákveða fjölda sóknardaga fyrir þann tíma. „Við það bættist yfirlýsing stærsta kaupandans, Vignis á Akranesi, að hann mundi ekki taka á móti grásleppu frá og með 31. mars til og með öðrum í páskum 5. apríl.“

Kveðst LS hafa borið upp beiðni sambandsins um að „heimilt yrði að skilja grásleppuna eftir á miðunum að lokinni aðgerð um borð“. Telur sambandið það vera íþyngjandi fyrir grásleppusjómenn að koma með fiskinn að landi ef ekki tekst að gera úr honum verðmæti.

Miklar deilur

Gríðarleg óánægja var með síðustu vertíð og hefur verið kallað eftir því að tilhögun grásleppuveiða verði breytt og hefur Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagt til að veiðarnar verði kvótasettar til að tryggja aukinn stöðugleika.

Mikill fjöldi grásleppusjómanna afhenti ráðherranum stuðningsyfirlýsingu í desember, en ekki virðist sem frumvarpið hafi verið afgreitt úr nefnd og því óvíst með þinglega meðferð þess. Fátt bendir til þess að formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður VG, Lilja Rafney Magnúsdóttir, styðji áform ráðherrans.

Þá var tekist á um tilhögun veiðanna á aðalfundi LS um hvaða afstöðu sambandið ætti að taka til veiðanna, en vitað er til þess að sumir hafi gengið til liðs við Samtök smærri útgerða vegna skiptra skoðana um kvótasetningu grásleppuveiða og fleiri atriði.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir