9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Vilja koma upp fiskeldi á SR-lóðinni

Skyldulesning

Við höfnina á Raufarhöfn. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Eigendur fjárfestingarfélagsins Bjargar capital ehf., sem tengist Íslenskum verðbréfum hf. nánum böndum, eiga í viðræðum við Norðurþing um yfirtöku á lóð SR-mjöls á Raufarhöfn. Áform eru um atvinnuuppbyggingu á lóðinni og mun fiskeldi vera þar efst á blaði. Tveir íbúafundir hafa verið haldnir um hugmyndina á Raufarhöfn og óformleg könnun á vilja íbúa stendur yfir.

„Ég er jákvæð fyrir þessu verkefni. Það getur verið mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu, ef það verður að veruleika,“ segir Helena Eydís Ingólfsdóttir, formaður byggðarráðs Norðurþings. Málið var rætt í byggðarráði á dögunum, að afloknum íbúafundi á Raufarhöfn þar sem verkefnið var kynnt. Byggðarráð ákvað að halda áfram viðræðum við Björgu capital og vinna að málinu í samvinnu við hverfisráð Raufarhafnar. Áformar byggðarráð að kynna uppfærð drög að samningi um lóðina um miðjan mánuð.

„Ég er jákvæð fyrir þessu verkefni. Það getur verið mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu, ef það verður að veruleika,“ segir Helena Eydís Ingólfsdóttir, formaður byggðarráðs mbl.is/Gúna

Mannvirki í niðurníðslu

Síldarverksmiðjur ríkisins voru með starfsemi á Raufarhöfn en eftir að verksmiðjan var lögð niður tók sveitarfélagið við lóðunum með samningum við SR og ríkið. Þá mun sveitarfélagið hafa fengið ákveðna fjármuni til að rífa ónýtar byggingar og taka til og átti sjálft að leggja fram fé á móti. Ekki hefur orðið af því og hefur lóðin verið til vandræða í mörg ár. Nanna Steina Höskuldsdóttir, verkefnastjóri atvinnu- og samfélagsþróunar á Raufarhöfn, starfsmaður SSNE (Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra), segir að mannvirkin séu ryðguð og ljót og jafnvel sé farið að fjúka úr þeim. Spurð um kaupverð lóðarinnar eða hugsanlega meðgjöf segir Helena að það mál sé enn á samningsstigi og verði ekki opinberað að sinni.

Ekki náðist í Jóhann M. Ólafsson, forstjóra Íslenskra verðbréfa og forsvarsmann Bjargar capital, í gær en hann kynnti áform um uppbyggingu fiskeldis á lóðinni á íbúafundinum. Nanna segir að hugmydin snúist um blandað eldi. Alin verði stórseiði á landi og þau alin í sjó um sumarið.

Þarf að breyta reglum

Til þess að stunda landeldi þarf mikið vatn og hita. Hitaveita er ekki á Raufarhöfn en forsvarsmenn fyrirtækisins ræða um að athuga gamlar borholur á svæðinu. Sjórinn utan við Raufarhöfn er innan svæðis þar sem laxeldi í sjókvíum er bannað. Spurð um þetta segir Helena að færa þyrfti línuna innar með breytingu á reglugerð til þess að þessi áform gætu gengið eftir.

Nanna Steina segir, þegar hún er spurð um afstöðu heimamanna, að málið sé enn til umræðu. Það sé síðan í höndum byggðarráðs að taka ákvörðun. „Þetta er mjög áhugavert verkefni. Ég tel að flestir séu hrifnir af því að fá einhverja uppbyggingu á SR-lóðinni. En það eru mörg ef í þessu og málið þarf að skoða vel,“ segir hún.

Helena segist bjartsýn á framgang málsins, eins og almennt um atvinnutækifæri sem verið sé að laða að. „Það skiptir máli hvernig samfélaginu á Raufarhöfn líst á þetta. Mikilvægt er að íbúar og sveitarstjórn séu samstiga í því sem verður gert,“ segir Helena.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir