1.3 C
Grindavik
27. nóvember, 2021

Viljum ekki vera ósýnilegar

Skyldulesning

Sabine Leskopf, Patience Karlsson , Kathryn Gunnarsson, Jessica Poteet og …

Sabine Leskopf, Patience Karlsson , Kathryn Gunnarsson, Jessica Poteet og Berenice Barrios Quiñones eru dugmiklar konur í íslensku atvinnulífi og tilheyra allar nýrri nefnd innan Félags kvenna í atvinnulífinu, New Icelanders.

mbl.is/Ásdís

Félag kvenna í atvinnulífinu styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameina til aukins sýnileika, en nýlega var stofnuð þar nefndin New Icelanders, sem sett var á laggirnar til að auka fjölbreytileika og styðja við erlendar konur. Þær eru ólíkar og með fjölbreyttan bakgrunn en eiga það sameiginlegt að vera nýir Íslendingar í atvinnulífinu, margar í stjórnunarstöðum. 

Með nefndinni geta þær hjálpað hver annarri, miðlað af reynslu sinni og opnað á samtalið. Blaðamaður hitti fimm flottar konur sem allar hafa náð að fóta sig á Íslandi þrátt fyrir ýmsar hindranir sem orðið hafa á vegi þeirra.

Byggjum brú á milli fólks

 „Í stjórn erum við átta en okkar hlutverk er að vera til taks fyrir erlendar konur á atvinnumarkaði. Áður voru mjög fáar erlendar konur í FKA en við vissum að þær væru til. Við heyrðum að þeim konum fyndist þær út undan og fyndist erfitt að tengjast öðrum konum hér. En hlutverk okkar núna er að hjálpa öllum konum í FKA að bjóða fleiri velkomnar í hópinn. Það er hægt að læra svo margt af þessum nýju konum,“ segir Kathryn Gunnarsson frá Englandi.

„Íslendingar tilheyra allir lokuðum hópum og það er erfitt fyrir erlenda konu að fá að vera með. Hluti af því að vera í þessari stjórn er að breyta þessu og reyna að skapa tengslanet fyrir erlendar konur í atvinnulífinu. Byggja brú á milli fólks,“ segir Berenice Barrios Quiñones frá Mexíkó.

„Það var ekki alltaf einfalt en ég hef fengið svo frábær tækifæri hér á landi, og oftast einmitt vegna þess að ég kem inn með nýja þekkingu og reynslu sem þörf var talin á. Ég er nú ekki í atvinnulífi eins og er heldur í stjórnmálunum en ástæða þess að ég er í þessari nefnd er einmitt þetta – að gera þann mannauð sem konur af erlendum uppruna eru sýnilegan og styðja við þær sem kunna að rekast á hindranir,“ segir Sabine Leskopf frá Þýskalandi.

Að brjóta múra

Hvernig finnst ykkur ganga að skapa tengsl?

„Því eldri sem þú ert, því erfiðara er það. Yngri kynslóðin er opnari en eldra fólk er oft erfitt að nálgast. Þau eru kannski vingjarnleg, en samt frekar vör um sig,“ segir Berenice.

„Við erum vinnufélagar Íslendinga, en um leið og vinnu lýkur erum við ekki vinir þeirra,“ segir Patience Karlsson frá Gana.

„Í bandarískum kúltúr eru vinnufélagar oft líka vinir manns, en það er öðruvísi hér, að minnsta kosti fyrir útlendinga sem hér vinna. Ég fór stundum í kaffi með vinnufélaga og hélt að við værum þar með orðnir vinir, en áttaði mig á því að við værum í raun bara vinnufélagar í hans huga,“ segir Jessica Poteet frá Bandaríkjunum.

„Íslendingar eru aldir upp við að hugsa um sig og sína og þið eruð öll í sama liði, eruð saman í rótgrónum saumaklúbbum og hópum. Við sem ekki höfum alist hér upp og gengið hér í skóla fáum ekki aðgang að sömu félagslegum tengslum og hópum. Að brjóta þessa múra getur verið erfitt. Ég er heppin og á nokkra íslenska vini sem ég hef eignast síðustu ár hér á Íslandi en það hefur krafist þess að ég leggði á mig að búa til ný sambönd og fara út úr þægindahringnum,“ segir Kathryn.

„Margir Íslendingar eru hámenntað fólk sem unnið hefur erlendis. Ég minni þetta fólk á hvernig það var fyrir þau að vera útlendingar í skóla eða vinnu erlendis. Maður þarf bara að finna tengingu við fólk. Fólk þarf að leggja sig fram við að skapa ný tengsl,“ segir Kathryn. 

Hljóma klár á spænsku

Konurnar eru sammála um að íslenskan geti verið erfið og mikil hindrun í starfi og leik. 

„Ein ástæða fyrir því að það er svo erfitt að læra íslensku er einmitt vegna þess að við eigum ekki nógu marga íslenska vini til að tala við og æfa okkur í íslensku,“ segir Patience.

„Svo er það auðvitað þannig að sem yfirmaður mun ég ekki reyna að eiga í faglegum samskiptum við fólk á íslensku. Ég hljóma þá eins og tveggja ára og það eyðileggur fyrir mér,“ segir Jessica.

„Og eins og hjá mér, og mörgum öðrum hér, er ég að tala ensku við fólk, en enska er mitt annað mál, ekki fyrsta. Ég hef sagt við fólk: „Ég get svarið það, ég hljóma mjög klár á spænsku,““ segir hún og þær hlæja dátt.

„Ég veit ekki hvað ég þyrfti að leggja mikið á mig í íslenskunámi til að ná nokkru sinni því stigi; að geta talað íslensku þannig að ég fengi þá virðingu sem ég á skilið,“ segir Berenice.

„Ég tel íslenskuna reyndar ekki erfiðari en önnur tungumál en það sem flækir allt hér er að bæði er námsframboðið á íslensku ófullnægjandi og svo tala flestir Íslendingar góða ensku, þannig að flestum, jafnt innflytjendum og Íslendingum, finnst það oft einfaldast að halda sig þar, í staðinn fyrir að leggja sig aðeins fram og gefa innflytjendum tækifæri á að tala íslensku án þess að dæma þá fyrir hverja villu,“ bætir Sabine við.

Hafið þið upplifað eða orðið vitni að mismunun eða hreinlega rasisma?

Sumar kvennanna svara því játandi en aðrar telja sig hafa orðið fyrir því sem kalla mætti öráreitni.

 „Það hafa verið sagðir ýmsir litlir brandarar eða það er starað á mann í búðum. Svo ef maður segist ekki tala íslensku halda samt margir áfram að tala við mann íslensku,“ segir Berenice. 

„Svo er það oft þannig að ég tala íslensku en er svarað á ensku,“ segir Patience.

„Ég spyr oft hvort fólki sé ekki sama þótt ég tali ensku og set þannig mörkin strax,“ segir Kathryn.

„Ég held að þetta eigi við um alla útlendinga, líka í öðrum löndum, þessi vandamál varðandi tungumálið. En eina leiðin til að komast áfram í atvinnulífinu hér er að eignast gott tengslanet,“ segir Kathryn.

„Við getum bara aðlagast ef okkur finnst við vera boðnar velkomnar og við fáum að sýna hvað við höfum fram að færa. Við viljum kynnast og byggja upp sambönd við flottar íslenskar konur í viðskiptalífinu því þær geta kennt okkur margt, en það gengur í báðar áttir. Við getum líka kennt þeim ýmislegt,“ segir Kathryn og segir að því sé nauðsynlegt að stofna slíkt félag eins og New Icelanders.

Hjálpa erlendum konum

Hver eru ykkar markmið?

Þær útskýra að aðalmarkmið sé að hjálpa erlendum konum að aðlagast og taka þátt íslensku í samfélagi og hyggjast þær halda viðburði til að styðja við þessar konur. Einnig er tilgangur nefndarinnar að fræða Íslendinga og sýna fram á kosti þess að búa í fjölmenningarlegu samfélagi.

„Við verðum með viðburði mánaðarlega, til dæmis um hvernig á að stofna fyrirtæki á Íslandi. Einnig erum við að byggja upp langtímaverkefni. Eitt varðar ómeðvitaða mismunun við ráðningu í störf. Við viljum vinna með fyrirtækjum og þeirra mannauðsstjórum til þess að þau útiloki ekki erlendar konur bara vegna þess að þær eru með erlenda ferilskrá,“ segir Berenice.

Félagskonur Félag kvenna í atvinnulífinu FKA gengu sameinaðar Búrfellsgjá í …

Félagskonur Félag kvenna í atvinnulífinu FKA gengu sameinaðar Búrfellsgjá í haust. Þar beindi FKA kastljósinu að New Icelanders, nefndinni Nýir Íslendingar FKA. Gangan var táknræn, nokkurs konar gjörningur þar sem mynduð var keðja ólíkra félagskvenna, hlekkjunum fjölgað í keðjunni og búið til pláss fyrir nýjar konur.

Ljósmynd/ONNO ehf.

Verðmætar í samfélaginu

Konurnar telja að íslenskt samfélag njóti góðs af þekkingu sem þær komi með frá sínum heimalöndum.

„Fólk heyrir oft bara innflytjendur nefnda í tengslum við alls konar vandamál eða áskoranir en við erum verðmæt í atvinnulífinu, ótrúlega verðmæt. Ísland er heppið að fólk vilji koma hingað og gefa landinu séns,“ segir Sabine og segir að með því að kynna til leiks konur sem þessar muni augu fólks opnast meira fyrir framlagi innflytjenda almennt.

Ítarlegt viðtal við konurnar fimm er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir