4 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Vill rannsaka hvort öryrkjar og bótaþegar sigli undir fölsku flaggi

Skyldulesning

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist finna mjög til með fólki sem eru allar bjargir bannaðar. Hins vegar þurfi þeir sem ekki eru í þeirri stöðu að bera sjálfir einhverja ábyrgð. Fjöldi öryrkja og fólks á atvinnuleysisbótum sé allt of mikill.

Brynjar ræddi þessi mál í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann segir að girða þurfi fyrir misnotkun á kerfinu.

„Í örorku er nánast veldisvöxtur,“ segir Brynjar. Þetta þurfi að skoða þótt umræðan sé viðkvæm. 

„Það er stundum eins og það megi ekki taka umræðu um svik í almannatryggingakerfinu, af því að þá er verið að ráðast á þá sem standa höllum fæti og menn setja bara alla öryrkja á sama stað,“ segir Brynjar.

„Ef þróunin verður þannig að á hverjum skattgreiðanda hvílir einn öryrki og einn aldraður, þá er það orðið ansi mikið og eitthvað sem gengur auðvitað ekki til lengdar. Ef þeim sem nettó greiða skatt heldur stöðugt áfram að fækka, þá erum við auðvitað ekki lengur sjálfbær og þá þarf að grípa til aðgerða.“

Samfélagið ráði ekki við áframhaldandi stöðu

Öryrkjum fjölgi hratt, hvernig sem staðan sé í samfélaginu. 

Hann hefur í gegnum árin verið ófeiminn við að segja það sem honum finnst. Hann hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 2013.

„Ef það verða áfram svona margir á örorku og atvinnulausir þá er ljóst að samfélagið mun ekki hafa efni á að greiða þó þær bætur sem er verið að greiða í dag,“ segir Brynjar. Þá kunni að vera að fækki í hópnum. Ómögulegt sé að segja til um það.

Hann segir hlutfall fólks á bótum ótrúlega hátt miðað við hve mikið sé gert til að bæta heilbrigðisþjónustu og fleira í þeim dúrnum.

Verðum að þora að taka á þessu

„Heildarmarkmiðið á auðvitað að vera að það séu sem fæstir á örorku, af því að þá er hægt að gera betur við þá sem þurfa á bótunum að halda. Við verðum að þora að segja á einhverjum punkti: „Þetta gengur ekki lengur“.“

Brynjar vill horfa til nágrannaþjóðanna og nota sem fyrirmyndir. Danir og Norðmenn taki mjög hart á öllu svindli á almannatryggingakerfinu. Þeirra stofnanir hafi mikil úrræði til að fylgjast vel með öllu svindli. Þessa umræðu megi ekki taka á Íslandi því þá sé maður sakaður um að vera að ráðast á fólk sem standi illa.

„Við verðum á einhverjum punkti bara að þora að taka á þessu. Ef fólk er að vinna svart sem er að þiggja bætur á auðvitað bara að rannsaka það sem hver önnur svik, en það er stundum eins og það megi ekki. Við sem samfélag getum ekki leyft okkur það til lengdar að fjölga bara endalaust fólki á bótum án þess að skoða að það sé örugglega allt saman fólk sem raunverulega á að vera á þessum bótum.“

Það sé staðreynd að flestir öryrkjar hafi hærri ráðstöfunartekjur en tekjulægsta fólkið.

Umræðuna má sjá að neðan.

Innlendar Fréttir