8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Vill viðspyrnulán til atvinnuþróunar

Skyldulesning

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

mbl.is/Arnþór

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar, ásamt öðrum þingmönnum flokksins. Hún mælti fyrir tillögunni á Alþingi í kvöld. 

Meðflutningsmenn eru Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórunn Egilsdóttir, allt þingmenn Framsóknar.

Tillagan gengur út á aðgerð sem hvetur til fjárfestinga í atvinnuþróun og greiðir fyrir aðgengi atvinnuþróunarverkefna að lánsfjármagni á tímum efnahagslegs samdráttar. Aðgerðin felist í ríkisábyrgð á lán sem lánastofnanir veiti lögaðilum til atvinnu- og gjaldeyrisskapandi atvinnuþróunarverkefna.

Arðbærra fjárfestingar mikilvægar

Fram kemur í greinargerð að vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á viðbrögð stjórnvalda.

„Við þessar aðstæður er sérstaklega mikilvægt að hvetja fyrirtæki til framþróunar og arðbærra fjárfestinga. Það þarf aðgerðir sem halda atvinnulífinu gangandi og vinna gegn stöðnun. Samfélagið þarf á viðspyrnu, atvinnuþróun, fjölgun starfa og verðmætasköpun að halda,“ segir í tilkynningu frá Líneik vegna málsins.

Hún segir hvatann sem felst í ríkisábyrgðum eiga að geta nýst fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum þótt verkefnin sem ráðist verður í verði flest lítil og meðalstór. Þetta séu verkefni sem lánveitendur teldu vænlegan fjárfestingarkost í hefðbundnu árferði en gjalda nú fyrir óvissuna.

Hér má lesa tillöguna í heild og meðfylgjandi greinargerð.

Innlendar Fréttir