Villa með svakaleg plön fyrir sumarið eftir gott gengi Emery – Virt blað segir stjörnur Barcelona og Juventus á blaði félagsins – DV

0
118

Aston Villa hefur átt afar góðu gengi að fagna frá því Unai Emery tók við liðinu. Félagið er stórhuga fyrir sumarið.

Spænski stjórinn yfirgaf Villarreal til að taka við Villa seint í október. Liðið hafði átt í vandræðum undir stjórn Steven Gerrard.

Emery, sem er fyrrum stjóri Arsenal og Paris Saint-Germain, sneri genginu hins vegar við og er Villa nú í hörkubaráttu um Evrópusæti þegar fjórar umferðir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni.

Æðstu menn félagsins eru án efa hrifnir af því sem er í gangi á Villa Park undir stjórn Emery og eru þeir til í að styðja hann á leikmannamarkaðnum í sumar.

Ætlar Villa ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur heldur eru sóknarmenn stórliða á blaði.

Villa íhugar nefnilega að bjóða í Dusan Vlahovic hjá Juventus og Ferran Torres hjá Barcelona. Hið virta enska blað Daily Telegraph segir frá þessu.

Vlahovic er 23 ára gamall. Hefur hann skorað 21 mark í 58 leikjum með Juventus á þeim 16 mánuðum sem hann hefur verið hjá félaginu. Gæti Serbinn hins vegar hugsað sér til hreyfings.

Torres er sem fyrr segir hjá Börsungum og hefur verið þar síðan í janúar í fyrra. Eins og allir vita er félagið í fjárhagskröggum og alltaf til í að skoða það að selja leikmenn fyrir rétt verð, sérstaklega þar sem hugsanleg endurkoma Lionel Messi er í kortunum.

Torres er með reynslu úr ensku úrvalsdeildinni, þar sem hann var á mála hjá Manchester City í eitt og hálft ár og fagnaði Englandsmeistaratitli.

Auk þessara tveggja fylgist Villa vel með gangi mála hjá Kieran Tierney. Skotinn er úti í kuldanum hjá Arsenal og fer líklega í sumar. Hann þekkir Emery vel, en Spánverjinn fékk hann til Arsenal á sínum tíma.

Enski boltinn á 433 er í boði