Fyrir 160 milljónum ára ráfaði risaeðlutegund ein um það sem nú er austurhluti Asíu. Líklega er þessi tegund sú hálslengsta sem vitað er um. Niðurstöður nýrrar greiningar á hálsi og höfuðkúpu dýrs af þessari tegund, sem heitir Mamenchisaurus sinocanadorum, leiddi í ljós að háls dýrsins var 15 metra langur.
Steingervingurinn fannst 1987 í 162 milljóna ára gömlum steinum í Xinjiang í norðvesturhluta Kína að sögn The Guardian. Það var ekki fyrr en nýlega sem vísindamenn áttuðu sig á hversu langur háls dýrsins var.
Þessi tegund var ein stærsta risaeðlutegundin eða allt að 50 metrar frá trýni að hala og vó rúmlega 70 tonn. Þrátt fyrir að aðeins séu til nokkur bein úr dýrinu gátu vísindamenn áætlað lengd þess með því að bera beinin saman við steingervinga náskyldra risaeðla.
Langur háls var eitt af grundvallarskilyrðunum fyrir að grasætur gætu orðið svona stórar. Þær gátu étið gróður á stóru svæði á meðan þær stóðu á sama staðnum. Þær gátu þannig innbyrt mörg tonn af mat án þess að eyða mikilli orku í að hreyfa sig. Langur háls hefur einnig hugsanlega hjálpað þeim að verða ekki of heitt þar sem yfirborð þeirra var svo stórt. Svipað og fílar hafa náð að gera með því að vera með stór eyru.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Journal of Systematic Palaeontology.