7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Vinnur þrettán tíma vaktir hjá bresku póstþjónustunni en ætlar sér stóra hluti á HM í pílukasti

Skyldulesning

Einn af nýliðunum á heimsmeistaramótinu í pílukasti sem hefst í dag er hin 61 árs Deta Hedman. Þessi mikli frumkvöðull í pílukasti hefur keppt í tæplega fjóra áratugi, unnið rúmlega tvö hundruð titla en fær loks tækifæri á HM komin á sjötugsaldri.

Hedman hafði betur í baráttu við Fallon Sherrock um að komast á HM í pílukasti. Sherrock sló í gegn á HM í fyrra þar sem hún varð fyrsta konan til að vinna leik. Raunar vann hún tvo leiki áður en hún datt út í þriðju umferð.

Tvær konur keppa á HM í pílukasti í ár; Hedman og Lisa Ashton. Þetta er í annað sinn sem Ashton keppir á HM en þetta er hins vegar frumraun hinnar 61 árs Hedmans. Hún er fyrsta svarta konan sem keppir á HM og jafnframt næstelsti nýliðinn í sögu mótsins. Hedman er þó ekki sú fyrsta úr sinni fjölskyldu sem keppir á HM því bróðir hennar, Al, gerði það á HM 2003.

Hedman fæddist í Kingston, höfuðborg Jamaíku, 1959 og fluttist til Englands þegar hún var fjórtán ára.

Hún byrjaði að keppa í pílukasti um miðjan 9. áratug síðustu aldar og hefur síðan þá unnið meira en tvö hundruð titla í greininni. Þá varð hún fyrsta konan til að vinna karl í leik sem var sýndur í sjónvarpi þegar hún sigraði Aaron Turner á Opna breska meistaramótinu 2005.

Hedman hefur orðið fyrir kynþáttafordómum síðan hún byrjaði að keppa og verður enn fyrir þeim en lætur það ekki buga sig.

„Kynþáttafordómar eru enn til staðar. Þeir hafa ekki farið neitt og ég held að þeir hverfi aldrei vegna þess hvernig sumt fólk er,“ sagði Hedman við Sky Sports.

Meðfram því að keppa í pílukasti vinnur Hedman hjá bresku póstþjónustunni. Hún vinnur fjórar þrettán tíma vaktir í viku. Þrátt fyrir það og að vera komin á sjötugsaldurinn er hvergi nærri hætt.

„Ég verð eflaust alltaf viðloðandi leikinn þangað til ég dey eða missi minnið. Ég elska þetta enn og á mín augnablik“ sagði Hedman sem ber gælunafnið „Heart of Darts“ vegna góðgerðarstarfs sem hún vinnur með fötluðum börnum.

Hedman mætir Andy Boulton í 1. umferð heimsmeistaramótsins á laugardaginn. Áðurnefnd Lisa Ashton mætir Adam Hunt á morgun.

Bein útsending frá HM í pílukasti hefst á Stöð 2 Sport 3 klukkan 17:45 í dag.


HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir