Vísindamenn fundu afgerandi merki – Eldvirkni á Venusi – DV

0
97

Það eru eldfjöll víða í sólkerfinu okkar, meðal annars á Venusi. Nú hafa vísindamenn í fyrsta sinn sýnt fram á eldvirkni á plánetunni. The Conversation skýrir frá þessu.

Fyrir 32 árum var Magellan geimfar NASA á braut um Venus og kortlagði yfirborð plánetunnar með sérstakri radartækni.

Þykk skýjahula umlykur Venus og gerir okkur erfitt fyrir að sjá plánetuna. En þrátt fyrir það tóks Magellan að safna gögnum sem sýna að rúmlega 80% af yfirborði plánetunnar er þakið hrauni.

En fram að þessu höfðu ekki fundist nein sannfærandi merki um eldfjallavirkni á Venusi.

En eftir að hafa eytt mörg hundruð klukkustundum í að rannsaka myndir frá Magellan af Venusi komst jarðeðlisfræðingurinn Robert Herrick, hjá University of Alaska í Bandaríkjunum, að því að breytingar urðu á yfirborðinu á þeim tíma sem Magellan var á braut um Venus. Þetta gerðist á milli febrúar og október 1991.

Myndir frá þessum tíma sýna að gígur á einu stærsta eldfjalli plánetunnar, Maat Mons, tvöfaldaðist næstum að stærð á þessu tímabili.

The Conversation segir að vísindamenn telji að ástæðan fyrir þessu sé að eldfjallið hafi gosið. Til dæmis hafi myndast sprunga í gígnum og hraun hafi runnið út í október. Telja þeir að hrauntaumurinn hafi teygt sig marga kílómetra niður hlíðar Maat Mons.