Vísindamenn hafa hugsanlega fundið út af hverju stórir hundar lifa skemur en litlir – DV

0
91

Hundar af tegundinni stóri Dan, sem eru mjög stórir hundar, verða venjulega ekki mjög gamlir. Að minnsta kosti ekki í samanburði við smáhunda sem geta sumir orðið allt að 20 ára. Ástæðan fyrir þessum mikla mun á aldri stórra og lítilla hunda var rannsóknarefni vísindamanna við University of Adelaide í Ástralíu. Rannsókn þeirra hefur verið birt í The American Naturalist. Niðurstöður hennar benda til að ástæðuna sé að finna í hundaræktun síðustu 200 ára. Hún hafi gert að verkum að krabbamein sé algengara í stórum hundum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá University of Adelaide.

Vísindamennirnir greindu dánarorsakir og lífaldur 164 hundategunda af öllum stærðum.

Út frá gögnunum komust þeir að því að stórir hundar voru líklegri til að drepast af völdum krabbameins ungir að aldri miðað við minni hunda.

Vísindamennirnir segja að ástæðan fyrir þessu sé ekki munur á hversu hratt hundar eldast. „Stærri hundar eldast ekki hraðar en minni hundar en rannsókn okkar leiddi í ljós að þegar meðalþyngd hundategunda jókst, jókst hlutfall krabbameins,“ er haft eftir Jack da Silva, lektor í þróunarerfðafræði, í fréttatilkynningunni.

Vísindamennirnir telja að hundaræktun síðustu 200 ára hafi valdið því að vörn stærri hundategunda gegn krabbameini hafi ekki getað fylgt þróuninni. Ástæðan sé að hundarnir hafi í gegnum tíðina neyðst til að eyða svo miklum kröftum í að fjölga sér og stækka að þeir hafi ekki haft næga orku til að styrkja þau kerfi líkamans sem gera við frumur.

Góðu fréttirnar eru að vísindamennirnir telja að með tímanum muni stórar hundategundir laga sig að þessu og lengja líftíma sinn.