Vísuðu norsku skipi á bannsvæði til hafnar

0
132

Úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Aðsend

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu þess varir að norskt línuskip væri á veiðum innan bannsvæðis í fiskveiðilögsögunni í fyrrinótt. Áhöfn skipsins var þá gert ljóst að hún væri innan bannsvæðis og skipinu vísað til hafnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Viðurkenndi að skipið væri á veiðum Landhelgisgæslan varð vör við norskt fiskiskip á bannsvæði, þar sem ekki er leyfilegt að stunda veiðar, á fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar í fyrrinótt. Varðstjórarnir höfðu þá þegar í stað samband við vakthafandi skipstjórnarmann sem viðurkenndi að skipið væri á veiðum

„Fiskiskipið kom til Reykjavíkur í nótt og fóru liðsmenn séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar, lögreglumenn og fulltrúar Fiskistofu um borð í skipið í morgun. Rætt var við áhöfn skipsins auk þess sem farið yfir afladagbók og veiðarfæri,“ kemur fram í tilkynningunni.

Norska skipið hefur nú haldið frá Reykjavík en vettvangsrannsókn er lokið. Lögreglan annast áframhaldandi rannsókn í samvinnu við Landhelgisgæsluna.