Wilson dreginn til Akureyrar

0
154

Siglingin til Akureyrar gæti tekið um sólarhring. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Áætlað er að draga norska flutningaskipið Wilson Skaw til hafnar á Akureyri í dag og að það verði því komið í höfn á morgun, en skipið hefur setið fast í Húnaflóa síðan á þriðjudag. Verið er að dæla olíu úr flutningaskipinu yfir í varðskipið Freyju.

„Dælingin hófst í gærkvöldi og nú er búið að dæla um 60 rúmmetrum af þeim 190 sem þurfa að fara frá borði og við gerum þá ráð fyrir því að dælingunni ljúki seinni partinn í dag,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Varðskipið Freyja á vettvangi í gær. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Slöngu var komið fyrir á milli skipanna á Steingrímsfirði í gær.

„Við viljum hafa sem minnsta olíu um borð í skipinu ef eitthvað skyldi koma upp á,“ segir Ásgeir.

Slöngu var komið fyrir á milli skipanna á Steingrímsfirði í gær. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Skemmdir metnar frekar Síðar í dag fer fram köfun í skipið þar sem botninn verður skoðaður og skemmdir metnar frekar. Þá er verið að sjóða fyrir tvö göt á flutningaskipinu, það er á lest skipsins og í vélarrúminu.

„Þegar þessu er lokið gerum við ráð fyrir því að leggja af stað með skipið til hafnar á Akureyri, seinna í dag eða undir kvöld. Sú sigling gæti tekið um sólarhring en fer auðvitað eftir veðri og sjólagi.“

Verið er að dæla olíu úr flutningaskipinu yfir í varðskipið Freyju. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Ásgeir segir aðstæður hafa verið góðar á Steingrímsfirði og að öll vinna á vettvangi hafi gengið vel.