Í­kveikjan ekki talin hafa beinst að Trump eða réttar­höldunum – Vísir

0
9

Lögreglan í New York telur ekki að karlmaður á fertugsaldri sem kveikti í sjálfum sér fyrir utan dómshús þar sem réttað er yfir Donald Trump hafi ætlað sér að skaða Trump eða aðra. Maðurinn er sagður í lífshættu á sjúkrahúsi.

Vitni segja að maðurinn hafi dregið dreifibréf upp úr bakpoka og kastað þeim á jörðina áður en hann helti yfir sig vökva og kveikti í sér í Collect Pond-garðinum gegnt dómshúsinu á Manhattan í dag. Réttarhöld í sakamáli á hendur Trump stóðu þá yfir í dómshúsinu.

Almennir borgarar og lögreglumenn hlupu að manninum og notuðu jakka og slökkvitæki þess að að kæfa logana áður en slökkviliðsmenn komu á staðinn. Fjórir lögreglumenn slösuðust lítillega, að sögn Washington Post.

Maðurinn brann í nokkrar mínútur fyrir framan fjölda sjónvarpsupptökuvéla fjölmiðla sem fylgjast með réttarhöldunum yfir fyrrverandi forsetanum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Tarik Sheppard, aðstoðarlögreglustjóri, sagði á fréttamannafundi að maðurinn virtist vera einhvers konar samsæriskenningasinni. Hann hafi ekki virst beina spjótum sínum að Trump eða nokkrum öðrum sem tengist réttarhöldunum.

Bensínbrúsi á vettvangi íkveikjunnar í Collect Pond-garðinum á Manhattan. Maðurinn er sagður hafa hellt yfir sig eldsneyti áður en hann lagði eld að sjálfum sér.AP/Mary Altaffer Maðurinn, sem ferðaðist frá heimili sínu í Flórída til New York í vikunni, birti yfirlýsingu á bloggsíðu sinni þar sem hann boðaði að hann ætlaði að kveikja í sér. Þar bað hann vini sína, sjónarvotta og viðbragðsaðila afsökunar. Lýsti hann fyrirætlunum sínum sem öfgakenndum mótmælum gegn því sem hann kallaði margbiljóna dollara svikamyllu auðkýfinga sem væri ætlað að rústa hagkerfi heimsins.

Á dreifibréfunum sem hann hafði með sér í garðinn talaði hann um samsæriskenningar um að New York-háskóli (NYU) væri skálkaskjól fyrir mafíuna.

Julie Berman, ljósmyndari sem var að taka myndir af stuðningsfólki og andstæðingum Trump, segir Washington Post að hún hafi séð manninn kveikja í sér. Hann hafi haldið á spjaldi um að Trump og Joe Biden forseti ynnu saman að valdaráni.

Þrátt fyrir að uppákoman hafi átt sér stað fyrir utan öryggisgirðingar í kringum dómshúsið ætlar lögreglan að fara yfir viðbúnað þar og meta hvort að takmarka þurfi umferð almennings um garðinn á meðan á réttarhöldunum yfir Trump stendur.

Tengdar fréttir Kveikti í sér fyrir utan dómshúsið þar sem réttað er yfir Trump Karlmaður kveikti í sjálfum sér í garði gegnt dómshúsinu þar sem réttarhöld yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fara fram á Manhattan í New York. Vegfarendur slökktu í manninum sem var fluttur burt á sjúkrabörum.

19. apríl 2024 19:00

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Mest lesið
Fleiri fréttir Sjá meira