Vill virkjun í Vatnsfirði til að slökkva olíubálið

0
71

Allar umsagnir um þá beiðni Orkubús Vestfjarða að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar verði breytt svo þar megi reisa virkjun eru komnar til ráðherra umhverfis-, orku- og loftslags. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðu hans er að vænta en umsagnaraðilar, m.a. Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun og Vesturbyggð, voru á því að ekki séu forsendur fyrir hendi til að hrófla við friðlýsingunni.

Elías Jónatansson orkubússtjóri segir við Heimildina að ekkert í umsögnunum hafi komið honum sérstaklega á óvart. Eins og gefi að skilja hafi þær fyrst og fremst snúið að umhverfislegum þáttum „en minna að þeim jákvæðu samfélagslegu þáttum sem snúa meðal annars að uppbyggingu atvinnulífs og byggðar á Vestfjörðum“. Orkubúið sé enn að fara yfir efni umsagnanna og vill hann því ekki tjá sig frekar um þær að svo stöddu.

Persónulega finnist honum þó „full lítið“ gert úr vinnu tveggja starfshópa sem fjallað hafa um orkumál og eflingu samfélagsins á Vestfjörðum síðustu misseri. Annar hópurinn var skipaður af ráðherra orkumála 2021 og hafði það hlutverk að skoða raforkumál a Vestfjörðum. Hinn hópurinn var skipaður af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra árið 2022 og fjallaði um leiðir til að efla samfélagið á Vestfjörðum. Í skýrslum hópanna tveggja er að mati Elíasar ítarleg greining á núverandi stöðu og framtíðarsýn auk þess sem fram séu sett markmið um afhendingaröryggi og sjálfbærni í orkumálum Vestfirðinga. Þá séu einnig settar fram leiðir að þeim markmiðum. Í því samhengi sé virkjun í Vatnsfirði nefnd sem mikilvægur kostur, bæði fyrir afhendingaröryggi raforku og minnkun á olíunotkun varaafls.

Árið 2022, er Landsvirkjun skerti afhendingu á raforku til aðila sem voru með skerðanlega samninga, voru rúmlega 2 milljónir lítra af olíu notaðar til að knýja rafkyntar hitaveitur Vestfjarða. Forgangsorka, sem hægt er að semja um, er það dýr að Orkubúið telur samninga um slíkt ekki gerlega.

Nú er svipuð staða komin upp hjá Landsvirkjun, meiri eftirspurn er eftir rafmagni en framboð í augnablikinu, og því er orka skert til þeirra sem eru með skerðanlega samninga, þar með talið til Orkubús Vestfjarða. Og aftur er olía brennd og að sögn Elísar er útlit fyrir að brenndir verði 3,4 milljónir lítrar af olíu til vors. Aukakostnaður vegna þessara aðgerða gæti numið um 520 milljónum króna eða um 74 þúsund krónum á hvern Vestfirðing. „Þá er ótalinn umhverfiskostnaðurinn sem felst í brennslu olíu á tímum loftslagsbreytinga þar sem öll áhersla er á mikilvægi orkuskipta.“

VirkjunaráformHugmynd Orkubús Vestfjarða er að stífla vötn á Glámuhálendinu og leiða vatnið niður í stöðvarhús í Vatnsdal í Vatnfirði. Þetta myndi leiða til verulegrar skerðingar í rennsli áa um dalinn.

Mynd: Heimildin

Orkubúið vill fá að reisa vatnsaflsvirkjun í Vatnsfirði, á svæði sem notið hefur friðunar vegna náttúru og sögu í hálfa öld, í þeim tilgangi að auka framboð raforku á svæðinu, til að tryggja betur afhendingaröryggi hennar og til þess að hafa aðgang að „grænu varaafli“. Umsagnaraðilar um málið benda hins vegar sumir hverjir á að leita ætti annarra leiða til að ná sömu markmiðum. Benda þeir m.a. á tvöföldun einu flutningslínunnar inn á Vestfirði til að auka afhendingaröryggi sem og á aðra virkjunarkosti sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Þá er í gangi leit að heitu vatni á nokkrum stöðum sem gæti leyst rafkyndingu hitaveitna, að minnsta kosti að stórum hluta, af hólmi í framtíðinni.

„Við erum hóflega bjartsýn á að okkur takist að finna jarðhita í þeim mæli að nýta megi á miðlæga varmadælu á Patreksfirði fyrir núverandi notkun og hugsanlega stækkun veitunnar,“ segir Elías spurður um árangur jarðhitaleitar sumarsins. Á Ísafirði sé ennþá verið að bora rannsóknarholur og því of snemmt að segja til um árangur. Það gæti orðið niðurstaðan að bæði á Ísafirði og á Patreksfirði yrði um varmadælulausn að ræða. Það þýðir að sögn Elíasar að í stað þess að hægt verði að fasa út 12 MW af þeim 16 MW sem í dag eru notuð í rafkyntar hitaveitur þá yrði hægt að fasa út helmingi aflsins. „Óraunhæft er að gera ráð fyrir að slíkar varmadælulausnir gætu orðið tilbúnar fyrr en á árinu 2027.“ 

Meðal þess sem umsagnaraðilar benda á er að verndargildi náttúrunnar í Vatnsfirði hafi ekki rýrnað, líkt og telja má til raka með því að breyta friðlýsingarskilmálum, heldur aukist á síðustu áratugum. Virkjun á heiðum ofan fjarðarins myndi skerða óbyggð víðerni sem eru að verða fágæti í veröldinni og auk þess hafa áhrif á ár, vötn, fjörur og lífríki.

Að teknu tilliti til alls þess sem fram kom í skýrslum starfshópanna sem fyrr eru nefndir sem og þeirra ábendinga sem koma fram í umsögnunum væri að mati Elíasar „heppilegt fyrir málið“ að virkjunarkostur í Vatnsfirði yrði tekinn til umfjöllunar í rammaáætlun og færi síðan í umhverfismat sem kallar á frekari rannsóknir. „Það eru einmitt þau verkfæri sem við höfum í dag til að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tillit er tekið til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi og annarra gilda sem varða þjóðarhag, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eins og segir í lögum um rammaáætlun.“

Kjósa

4

Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir