Seðlabankinn stöðvar hagvöxtinn

0
13

Hagstjórn Seðlabanka Íslands er ekki nógu góð. Þó hagvöxturinn færi niður um helming í fyrra þá lækkaði verðbólgan ekkert það árið, heldur jókst lítillega. Og þó hagvöxturinn verði næstum enginn á yfirstandandi ári þá er búið við að verðbólgan lækki með minnsta móti.

Vaxtahækkanir Seðlabankans eru hugsaðar til þess að draga niður kaupgetu almennings, minnka einkaneyslu, fjárfestingu og íbúðarkaup – í þeirri von að verðbólgan lækki. Eins og menn vita hefur bankinn látið reyna á þessa leið til hins ýtrasta.

Nú eru vextir óvenju háir hér á landi en samt hefur gengið hægar að ná verðbólgunni niður en í flestum grannríkjanna í Evrópu og Norður Ameríku. Hvað segir það okkur?

Jú, það bendir til þess að vaxtahækkunar-úrræðið sé ekki að hitta nægilega vel í mark. Þetta útskýrði ég í nýlegri grein á Heimildinni (sjá hér). 

Verðbólgan er að miklu leyti drifin áfram af óvenju miklu misvægi á húsnæðismarkaði sem vaxtahækkanir Seðlabankans gera bara verra en áður var. Þá hefur ör vöxtur ferðaþjónustunnar verðbólguhvetjandi áhrif. Aðstæður eru að þessu leyti sérstakar hér á landi. Það skýrir m.a. of lítinn árangur af baráttu Seðlabankans við verðbólguna.

En Seðlabankinn er hins vegar að ná miklum árangri á öðru sviði. Aðgerðir hans hafa hægt á efnahagslífinu svo um munar. Það er beinlínis að slokkna á hagvextinum vegna hinna háu vaxta! Þetta má sjá á myndinni hér að neðan og hvernig þróun verðbólgunnar er á sama tíma.

Hagvöxturinn var óvenju mikill 2022, eða um 8,9%. Í fyrra var hann kominn niður í 4,1%, einkum vegna samdráttar í einkaneyslu og fjárfestingum. En í ár er gert ráð fyrir að hagvöxturinn fari niður í 0,9%, skv. nýrri þjóðhagsspá Landsbankans (sjá hér). Hagstofan spáir lítillega meiri hagvexti í ár, eða um 1,5%. Það er samt óvenju lítill hagvöxtur. Hagvöxtur á mann verður neikvæður. Hagvöxtur í Evrópu og Norður Ameríku verður víðast meiri en hér á árinu 2024. Þetta gerist þrátt fyrir að staða útflutningsgreina sé almennt góð.

Til hvers er barist? En virkar þessi hagvaxtarbremsa Seðlabankans á verðbólguna? 

Þó hagvöxturinn færi niður um helming í fyrra þá lækkaði verðbólgan ekkert það árið, heldur jókst lítillega. Og þó hagvöxturinn verði næstum enginn á yfirstandandi ári þá er búist við að verðbólgan verði um 6% að meðaltali á árinu – lækki með minnsta móti. 

Þetta er augljóslega ekki nægilega góð hagstjórn hjá Seðlabankanum. Of miklu er kostað til og árangur of lítill. Beita þarf öðrum aðferðum í baráttunni við verðbólguna, einkum aðferðum sem ríkisvaldið hefur í sinni verkfærakistu. 

Sem dæmi um vænlegar aðgerðir stjórnvalda í núverandi aðstæðum má nefna inngrip á húsnæðismarkað (t.d. takmörkun á fjölda Airbnb-íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem gæti aukið snarlega framboð íbúða til heimamanna í stað ferðamanna um nálægt 2.500 íbúðir; aukna hvata til byggingariðnaðarins til að hraða framboði ódýrra nýrra íbúða; hömlur á brask með lóðir og íbúðir sem hækkar verð; fjölgun lóða fyrir minni og ódýrari íbúðir og upptaka alvöru leigubremsu). 

Annað vel þekkt úrræði gegn verðbólgu er að beita skattalegum aðferðum til að hemja eftirspurnarþrýsting þeirra betur settu, sem ætti að virka betur og hraðar en vaxtahækkanir Seðlabankans. Þá er mikil ástæða til að tempra öran vöxt ferðaþjónustunnar sem er þensluhvetjandi og fæðir verðbólguna. Að auki koma ýmis önnur sértæk úrræði til greina. Ríkisvaldið þarf að koma af alvöru að lausn vandans, í stað þess að láta Seðlabankann einan standa verðbólguvaktina.

Ég reikna ekki með að stjórnendum Seðlabankans hugnist það vel að slökkva á hagvextinum eða jafnvel framkalla samdráttarkreppu. Þá verður lækningin orðin verri en sjúkdómurinn (verðbólgan). En við erum á hraðri leið þangað.

Verkfærakista Seðlabankans er of einhæf og ekki nægilega markviss til að skila því sem þarf. Ríkisvaldið þarf því að taka til hendinni og beita öflugum hagstjórnarúrræðum sem það býr yfir. Ójafnvægið á húsnæðismarkaði eitt og sér kallar á róttækar bráðaaðgerðir.

Mikið er í húfi. Verkalýðshreyfingin hefur lagt sitt af mörkum til að létta verðbólguþrýstingi með hóflegri hækkun launa í nýjum kjarasamningi til fjögurra ára. Lækkun verðbólgu og vaxta gengur samt alltof hægt og horfurnar eru ekki nógu góðar fyrir næstu tvö árin.

Stjórnvöld ættu sem fyrst að kalla saman trúverðugan og kröftugan hóp einstaklinga til að móta ný hagstjórnarúrræði sem eru líklegri til að virka almennilega á verðbólguna. Ef það tekst ekki ætti þjóðin að fá að kjósa sér ný stjórnvöld.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu.

Kjósa

5

Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir